Í ágúst síðastliðnum drápust um 322 þúsund eldislaxar í sjókvíum við Ísland. Þetta má lesa út úr nýjustu upplýsingum á Mælaborði fiskeldis á vefsvæði Matvælastofnunar yfir „afföll“ og magn eldislax í sjókvíum í þeim mánuði.

Ágúst er þriðji versti mánuðurinn af fyrstu átta mánuðum ársins. Samtals hafa nú tvær milljónir og sex þúsund eldislaxar drepist á því tímabili. Það þýðir að á hverjum einasta degi frá 1. janúar til 31. ágúst fjarlægðu sjókvíaeldisfyrirtækin að jafnaði 8.255 dauða eldislaxa úr sjókvíum sínum.

Til að setja þessar tölur í samhengi er talið að allur íslenski villti laxastofninn telji um þessar mundir innan við 80.000 fiska.

Þessi ómannúðlegu meðferð á eldisdýrunum er langt í frá það eina sem aðstandendur sjókvíaeldisiðnaðarins hafa á samviskunni. Þessi harðneskjulegi iðnaður losar beint í sjóinn óhreinsað skólp, fóðurleifar, lyf og eiturefni, og skaðar villta laxastofna með sníkjudýrum og erfðablöndun.

Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Munið að spyrja hvaðan laxinn kemur sem er seldur í búðum og á veitingahúsum.

Ljósmyndina sem hér fylgir tók Veiga Grétarsdóttir af dauðum eldislaxi í sjókvíum Laxa í Reyðarfirði fyrr í haust.