„Vissulega eru í orði lagðar ákveðnar skyldur á þessi fyrirtæki en þegar kemur að því að fylgjast með því hvort eftir þeim sé farið er vanmáttur hins opinbera nær alger.“

Ragna Sif Þórsdóttir, stjórnarkona í Icelandic Wildlife Fund, rifjar upp í þessari grein í Viðskiptablaðinu hversu víða pottur er brotinn í umgjörðinni í kringum sjókvíaeldið hér við land.

„Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi, sem Alþingi hefur nú til meðferðar, er gert ráð fyrir að eftirlit með fiskeldi sé fyrst og fremst í höndum fyrirtækjanna sjálfra. Þau haldi uppi innra eftirliti og sendi MAST skýrslur. Það liggur í augum uppi að þetta er mjög veikburða kerfi. Fyrirtækin hafa augljósa hagræna hvata af því að gefa ekki upp upplýsingar sem kunna að skaða þau.

Þessi stóri galli á frumvarpsdrögum ráðherra verður enn skýrari þegar úttekt Ríkisendurskoðunar á Fiskistofu frá því í fyrra er höfð til hliðsjónar. Í henni kom fram stór áfellisdómur um þá umgjörð sem stjórnvöld hafa kosið að búa stofnuninni, en með henni er geta Fiskistofu til að sinna lögbundinni eftirlitsskyldu sinni mjög takmörkuð. Þarf hún meðal annars að treysta á tilkynningarskyldu handhafa aflahlutdeilda þegar kemur að eftirliti með hvort aflahlutdeild sé í samræmi við það hámark sem skilgreint er í lögum, í stað þess að byggja á eigin upplýsingaöflun.

Mögulega er það einmitt draumaveruleiki framkvæmdastjóra SFS að fyrirtækin hafi svona frítt spil en fyrir náttúru Íslands er það martraðarkennd staða.“