Stundin vekur athygli á því í nýrri frétt að svo kunni að vera að hluti af einni milljón eldislaxa sem færeyska sjókvíaeldisfyrirtækið Bakkafrost segist hafa glatað („loss of one million fish“) hafi sloppið úr sjókvíunum en ekki drepist eins og fyrstu fréttir gerðu ráð fyrir. Fyrirtækið hefur ekki svarað ósk Stundarinnar um útskýringar á loðnu orðalagi í fréttatilkynningu þess.

Það er grafalvarlegt mál ef Bakkafrost hefur misst eldislax frá sér. Náttúruleg fæðuslóð villtra laxastofna frá löndum við Norður Atlantshafið eru við Færeyjar. Ekki þarf að efast um að sleppifiskur úr sjókvíum muni blandast þessum stofnum í hafinu og fylgja með villtum laxi þegar hann gengur í heimaár sínar í vor.

Laxár á Íslandi, í Noregi og Skotlandi eru í hættu. „Þessir fiskar hafa sporð og þeir geta synt og þeir geta synt býsna langt,“ segir Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, í frétt Stundarinnar.