Argentíski stjörnukokkurinn Mauro Colagreco sem á þriggja stjarna Michelin staðinn Mirazur í Frakklandi, hvetur alla til þess að sniðganga eldislax úr sjókvíum. Veitingastaðurinn var á dögunum valinn sá besti í heimi.

„Þú borðar lygi“ er slagorðið sem Colagreco og hópur annarra argentískra matreiðslumeistara notar í baráttu sinni gegn því að sjókvíar verði settar í sjó við Argentínu og beina þeir þar spjótum sínum að eldislaxinum sem þeir segja að sé alls engin hollustuvara.

Matreiðslumeistararnir hafa snúið bökum saman við náttúruverndarsamtök gegn því að þessi mengandi iðnaður komi sér fyrir í fjörðum heimalands þeirra. Allir hafa þeir tekið eldislax úr sjókvíum af matseðlum veitingastaða sinna.