Kjarninn birti um páskana athyglisvert viðtal við Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra þar sem meðal annars er rætt um laxeldismál. Guðmundur er vel að sér um stöðuna og segir gríðarlega mikilvægt að fara varlega í þessum efnum. „Ég sé þetta þannig fyrir mér að fiskeldið þurfi að þróast á næstu 10 til 15 árum í þá átt að ekki verði um neina erfðablöndum að ræða. Það kallar á breyttar aðferðir við laxeldið,“ segir Guðmundur Ingi í viðtalinu.

Hugsunin er góð en að okkar mati er sá tímarammi sem ráðherrann nefnir alltof rúmur. Það er ekki eftir neinu að bíða. Íslendingar eiga að byrja á réttum stað. Ef auka á laxeldi verulega á Íslandi á að gera það strax með tækni sem ógnar ekki umhverfi og lífríki eins og sjókvíaeldið gerir.