Þessi „kynningarfundur“ sjókvíaeldislobbísins var augsýnilega ansi endaslepptur eins og kemur fram í þessari frétt RÚV:

„Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, vissi ekki af fundinum sem snerist að miklu leyti um þeirra áhættumat. „Svolítið merkilegt ef það er verið að ræða um slíkt, það sérstaklega, að við séum ekki til andsvara. Við hjá Hafrannsóknastofnun erum ekkert á móti fiskeldi, við erum bara að taka þetta út frá hlutlausum vinkli,“ segir Ragnar í fréttinni.

Hann segir að vissulega sé norska áhættumatið annars eðlis en hér á landi. „Þetta er í rauninni bara svona ástandsskýrsla sem þeir gera á hverju ári, áhættumatið norska. Þá fara þeir upp í ár og telja eldisfiska og slíkt. Þetta er meira eins og vöktun og niðurstöður vöktunar og hluti af því sem við erum líka að gera. Það sem áhættumatið okkar snýst meira um er að áætla hversu margir eldislaxar munu fara upp í ár,“ segir Ragnar.

Áhættumatið íslenska var unnið fyrir tilstuðlan starfshóps um stefnumótun í fiskeldi og náði til þeirra fjarðar sem höfðu gengist undir burðarþolsmat. Niðurstaða matsins er að Vestfirðir þoli 50 þúsund tonna eldi og Austfirðir 21 þúsund tonna eldi á frjóum laxi, án þess að það valdi óafturkræfum skaða á náttúrulegum laxastofnum vegna erfðablöndunar.