Á fundum þar sem tekist hefur verið á um sjókvíaeldi undanfarin misseri hafa talsmenn þess iðnaðar iðulega sagt að landeldi væri ekki raunhæfur kostur á viðskiptalegum forsendum. Reyndar hefur Einar K. Guðfinnsson, sem var talsmaður Landssambands fiskeldisstöðva, líka haldið þessu sjónarmiði fram þrátt fyrir að innan raða samtaka hans séu nú þegar blómlegar landeldisstöðvar. Á einum slíkum fundi, á vegum Pírata í Norræna húsinu, lenti Einar meira að segja í orðaskaki við fulltrúa Hafrannsóknastofnunar vegna þess að sá hafði bent á þá einföldu staðreynd að samkeppnisforskot Íslands í landeldi gæti verið mikið því óvíða í heiminum eru betri aðstæður en hér, nægt landrými, jarðhiti, ferskt vatn og jarðsjór.

Þrátt fyrir þessa eindregnu afneitun Einars og félaga hefur landeldi á laxi á iðnaðarskala engu að síður verið á mikilli siglingu víða um heim. Undanfarin tvö ár hefur til dæmis verið seldur í Dubai lax sem er alinn í eyðimörkinni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hafi einhver enn efast um að ekki væru viðskiptatækifæri fyrir Ísland í landeldi þá ættu fréttir síðustu vikna og mánaða að leggja þær efasemdir endanlega til grafar. Fyrst kynnti Samherji áætlanir um risavaxið landeldi á Reykjanesi og í síðustu viku var sagt frá því að Stoðir, framsæknasta fjárfestingafélag landsins, sé komið með um þriðjungs hlut í Landeldi hf. sem stefnir á um 32.500 tonna ársframleiðslu af laxi í nýrri landeldisstöð, en fyrsti áfangi hennar er að rísa í Þorlákshöfn.

Talsmenn sjókvíaeldisiðnaðarins benda enn á að sú aðferð sé „hagkvæmari“. Sannarlega er hún það fyrir þá sjálfa en alls ekki fyrir umhverfið og lífríkið. Þangað sækja hluthafar í sjókjvíaledisfyrirtækjunum niðurgreiðslu á sinni skaðlegu aðferð. Náttúran fær reikninginn og er látin bera kostnaðinn af menguninni, snýkjudýrunum og erfðablöndunni sem sprettur úr opnu netapokum sjókvíanna. Ekkert af því berst viðstöðulaust og óhreinsað út í umhverfið frá landeldisstöðvum.

Landeldið á framtíð fyrir sér, eins og glöggt kemur fram í þessari frétt Fiskifrétta um aðkomu Stoða hf. að nýrri landeldisstöð í Þorlákshöfn.