Við mælum með þessari grein Elvars. Það hefur verið með nokkrum ólíkindum að sjá umfjallanir um þetta hrognkelsaeldi hér á landi á undanförnum dögum. Meðferðin á hrognkelsum er einn hrikalegasti velferðarvandi sjókvíaeldis á laxi og er þar þó af mörgu ömurlegu að taka. Hrognkelsunum er sturtað í sjókvíarnar til að éta laxalús af eldislöxunum og þar með eru örlög þeirra ráðin. Nánast hver einasti af þessum vinnufiskum drepst í sjókvíunum.

Í Noregi fer tala fiska sem drepast þannig á ári yfir fimmtíu milljónir. Hluti af þeim kemur úr eldi en um helmingur er veiddur villtur og settur í kvíarnar.

Virðingin fyrir lífríkinu er engin. Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Í grein sinni segir Elvar meðal annars:

„Þessa dagana keppist laxeldisiðnaðurinn við það klappa sjálfum sér á bakið. … Sem dæmi má nefna að þann 27. október birtust að minnsta kosti 10 aðkeyptar lofgreinar um fiskeldi í fjölmiðlum landsins. Það er þekkt aðferð hjá iðnaði sem hefur slæman málstað að verja að hreinlega kaupa sér pólitísk völd og jákvæða umfjöllun. …

Það er ekkert annað en móðgun við allt villt og náttúrulegt að segja að kynbættur norskur eldislax sé „einn heilbrigðasti laxastofn í heimi“. Vísindasamfélagið er sammála um það að það er einmitt þessi lax sem er helsta ógnin við hina villtu laxastofna. Eldislaxinn sleppur úr kvíum og syndir upp í ár með náttúrulega stofna, hrygnir og erfðablandast þannig villtum stofnum sem hafa aðlagast náttúrulega umhverfi sínu síðan á síðustu ísöld. Sjókvíaeldi og eldislaxinn sem þar er notaður mun verða til þess að villtir laxastofnar verða „óheilbrigðir“ og munu á endanum deyja út.

Látum ekki sefjandi umfjöllun mengandi iðnaðar blekkja okkur. Sjókvíaeldi er úrelt og mun skilja eftir sig hörmungarsögu fyrir náttúru og vistkerfi.“