Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis Hafrannsóknastofnunar, var í mjög athyglisverðu spjalli á Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Guðni sagði meðal annars frá því að í þeim 100 íslenskum ám þar sem lax er nýttur með skipulögðum hætti, er í hverri og einni á sérstakur stofn með sín sérkenni. Erfðafræðilegur munur á stofnum getur verið mikill því laxinn lagar sig að ánni og árnar eru mjög misjafnar.

Þar fyrir utan eru fjölmargar aðrar ár á landinu, þar sem er ekki skipulögð nýting, með sína litlu stofna sem hafa átt þar heimkynni í þúsundir ára. Laxinn er svo sannarlega merkileg skepna.

„Aðlögunin er býsna mikil og erfðafræðilega er mikill munur eða með því meira sem gerist hjá dýrategundum,“ bendir Guðni á í viðtalinu.

Það er einmitt af þessari ástæðu sem villtir laxastofnar eru svo viðkvæmir fyrir erfðablöndun við eldislax. Eftir náttúruval þar sem jafnvel hefur tekið þúsundir ára fyrir viðkomandi stofn að aðlagast heimkynum sínum í tiltekinnni á getur það haft skelfileg áhrif að fá skyndilega gen úr því hraðvaxta húsdýri sem norski eldislaxinn er. Geta blendinganna til að lifa af í náttúrunni snarminnkar. Þeir missa hæfileikann til að rata, verða jafnvel of þungir til að komast á hrygningarslóð ásamt ýmsum öðrum neikvæðum áhrifum. Afleiðingarnar verða síðan þær að stofninn minnkar.