ISA veiran sem veldur hinum banvæna blóðþorra hefur verið staðfest á enn einu sjókvíaeldissvæði í Reyðarfirði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Laxar fiskeldi sendi frá sér um helgina og birtist í norskum fjölmiðlum.

Ekkert hefur heyrst frá Matvælastofnun og Laxar fiskeldi virðist ekki telja sér skylt að upplýsa aðra en norska aðila um þessar hörmungar.

Í frétt Salmon Business er vitnað til tilkynningar Laxa þar sem kemur fram að slátra þurfi 1,1 milljón eldislaxa sem eru 2,7 kg að þyngd að meðaltali.

Aðeins er mánuður liðinn frá því Laxar tilkynntu um slátrun á um einni miljón eldislaxa á öðru svæði í Reyðarfirði vegna ISA smits. Til að setja þessar tölur í samhengi þá telur allur íslenski villti laxastofninn um 50.000 til 60.000 fiska.

Þessi hættulegasta veira sem getur komið upp í sjókvíaeldi fannst í fyrsta skipti við Ísland í nóvember hjá Löxum í Reyðarfirði

Rétt er að minna á að kenning dýralæknis fisksjúkdóma hjá MAST er sú að aðstæður eldislaxanna í sjókvíunum í Reyðarfirði hafi valdið ónæmiskerfi þeirra brast og veira sem hefði átt að vera þeim meinlaus stökkbreyttist í þetta banvæna afbrigði. Kenning dýralæknis fisksjúkdóma er að umhverfi eldisdýranna hafi valdið þessu.

Með öðrum orðum aðstæðurnar sem fyrirtækið kýs að búa eldislaxinum eru orsökin. Ábyrgðin liggur hjá stjórnendum fyritækisins og hvergi annars staðar.

Þessi staða á ekki að koma á óvart. Miklar líkur eru á að uppi komi á endanum alvarlegir sjúkdómar í öllu þauleldi og verksmiðjubúskap þar sem miklum fjölda dýra er haldið lengi saman á margfalt þrengra svæði en er þeim náttúrulegt.

Gríðarlegum fjölda eldisdýra hefur verið slátrað vegna veirunnar. Sjókvíaeldi á laxi er ömurlegur iðnaður og óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Salmon Business fjallar um málið.