Athugið að þessar hörmungar í Dýrafirði eru manngerðar. Í tilkynningu frá móðurfélagi Arctic Fish til norsku kauphallarinnar kemur fram að þennan hrikalega dauða eldisdýranna megi meðal annars rekja til „meðhöndlunar“ á eldislaxinum.

Ef bóndi á landi færi þannig með dýrin sín að þriðjungur þeirra dræpist, þá yrði hann umsvifalaust sviptur leyfi til dýrahalds og kærður til lögreglu.

Skv. umfjöllun Stundarinnar:

“Gísli Jónsson, dýralæknir fiskisjúkdóma hjá MAST, segir að laxadauðinn hjá Arctic Fish í Dýrafirði, sem kominn var upp í 3000 tonn samkvæmt síðustu tölum, sé mesti dauði og tjón sem hefur átt sér stað í sögu íslensks laxeldis. „Þetta er talsvert tjón. […] Ef við bara horfum á umfangið og tjónið í verðmætum þá er þetta langstærst. Án nokkurs vafa. Það er bara ekkert í líkingu við þetta núna,“ segir Gísli en framleiðsla íslenskra laxeldisfyrirtækja hefur aukist mjög á liðnum árum.

Til að undirstrika þetta voru 34 þúsund tonn af óslægðum norskum eldislaxi framleidd á Íslandi árið 2020 á meðan þau voru rétt rúmlega 3.200 árið 2015. Því er um að ræða rúmlega tíföldun í framleiðslunni á einungis fimm árum. Samhliða þessari aukningu getur tjón í framleiðslunni aukist.“