Við vekjum athygli á þessari grein Elvars. Og við hana er rétt að bæta að eldislaxar sem hafa sloppið úr sjókvíaeldi hér við land hafa veiðst í ám mörg hundruð kílómetrum frá eldissvæðunum.

Sjókvíaeldi í opnum netapokum er úrelt tækni. Þrátt fyrir það eru íslensk stjórnvöld enn að gefa út ný leyfi sem munu gilda í mörg mörg ár til viðbótar.

„Lax sleppur alltaf úr sjókvíum. Það á sér ekki bara stað þegar stór göt uppgötvast á kvíum, heldur lekur jafnt og þétt úr kvíunum þann tíma sem þær eru í sjó. Í áhættumati erfðablöndunar sem Hafrannsóknarstofnun gerði er gert ráð fyrir því að 0,8 laxar sleppi fyrir hvert framleitt tonn. Þar er þó ekki tekið tillit til slysasleppinga og stórslysa sem því miður eru afar algengir atburðir í sjókvíaeldi.

Nú eru áberandi fréttir um þá gríðarlegu aukningu sem er í sjókvíaeldi á Íslandi. Flestar fréttirnar fjalla um útflutningsverðmæti en aldrei er talað um þau neikvæðu umhverfisáhrif sem fylgja þessari aukningu. Framleiðsla í sjókvíum árið 2021 var um 44.500 tonn og í þessum ósköpum drápust um það bil þrjár milljónir laxa vegna aðstæðna í kvíunum.

Skoðum þessar tölur aðeins. Ef að 0,8 laxar sleppa fyrir hvert tonn, þá má gera ráð fyrir því að ríflega 37.000 frjóir, erfðabættir, norskir eldislaxar hafa sloppið út í íslenska náttúru árið 2021. Þessir laxar hafa sama eðli og þeir villtu, þ.e. þegar tíminn kemur leita þeir að á til að ganga upp í og hrygna með þeim villtu. Þetta er það sem mun þynna út erfðaefni villtra stofna og á endanum valda því að þeir deyja út.“