Engum blöðum er um það að fletta að lífsskilyrði fjölmargra villtra dýrategunda eru að verða þeim enn fjandsamlegri en verið hefur. Í þessari frétt RÚV kemur fram að vísindamenn segja að þessar miklu breytingar á veðurfari séu í samræmi við svörtustu spár undanfarin ár og fari jafnvel fram úr þeim.

Meðal fiskitegunda sem verða hart fyrir breytingunum er villti laxinn.

Aukið sjókvíeldi við strendur Íslands heggur harkalega að laxinum sem nú þegar á í vök að verjast vegna þurrka og öfga í veðri. Hafrannsóknarstofnun mun senda frá sér á næstunni nýtt áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna. Vonandi verður áhættumatið hert verulega frá fyrstu útgáfu. Staða íslenska laxins er viðkvæm og hann má ekki við frekari áföllum.