Spurningin með net er ekki hvort þau rifni heldur bara hvenær. Þetta þýðir að eldislax sleppur reglulega úr netapokum sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Auðvitað á að banna þessa úreltu tækni þar sem eldislax sleppur látlaust út með ómældum skaða fyrir villta laxastofna vegna erfðablöndunar. Við þetta bætist skólpið sem streymir beint í hafið í gegnum netmöskvana.

Það er óskiljanlegt af hverju þessi vellauðugu fyrirtæki, sem eiga sjókvíaeldið hér við land, fá að komast upp með að láta lífríkið og náttúruna niðurgreiða þessa skaðlegu framleiðsluaðferð.

Skv. frétt Stundarinnar:

Laxarnir veiddust og voru settir í frysti í Mjólkárvirkjun, sem tilheyrir Orkubúi Vestfjarða, og var Fiskistofa í sambandi við stöðvarstjórann í henni, Steinar Jónasson.  „Okkar eftirlitsmaður fékk að taka sýni úr þessum fiskum og þau eru nú hjá Hafrannsóknarstofnun.  Þetta gerist í fyrradag, á miðvikudagsmorgun, eftir að við höfðum verið upplýstir um að þessir fiskar hefðu veiðst. Það liggur hins vegar ekkert fyrir um uppruna þessara fiska á þessari stundu. Við fórum sérstaklega, gagngert, til að kanna þetta og við ákváðum að fara í eftirlit til að skoða þetta,“ segir Guðni. …

Guðni undirstrikar að það sé mjög óvenjulegt að svo margir laxar veiðist í Mjólká en að á þessu stigi sé ekki hægt að fullyrða hvort um hafi verið að ræða eldislaxa eða ekki. Fiskistofa hefur tekið sýni úr löxunum tólf og verða þau send til greiningar.

Einungis eftir að þessi greining hefur farið fram er hægt að fullyrða um hvort laxarnir eru eldisfiskar eða ekki.  „Það eru starfsmenn þarna að störfum í virkjuninni og þegar það verður vart við fisk þarna eru menn væntanlega fljótir að reyna sig við hann. Þetta er bara árstubbur og skilyrðin fyrir hrygningu þarna eru ekki góð. Það hefur veiðst eldisfiskur í Mjólká áður en líka náttúrulegur lax,“ segir Guðni.

Ef um er að ræða eldislaxa er um ræða eitt af stærri tilfellum um að slíkir hafi veiðst í íslenskri á síðastliðin ár.