„Frá hverju tonni sem er alið í sjókví er gert ráð fyrir að einn fiskur sleppi – það er talan í Noregi, hérna í áhættumati er talað um 0,8 fiska. Þannig við bara getum gert ráð fyrir því að hérna hafi sloppið þrjátíu eða fjörutíu þúsund laxar úr eldiskvíum á síðasta ári. Þannig að þessir eldislaxar sem finnast í Mjólká, þeir eru ekki einu sinni toppurinn af ísjakanum sem við sjáum ekki undir yfirborðinu,“ segir Jón Kaldal, talsmaður IWF í fréttaviðtali á Vísi.

„Þegar sjókvíeldið var heimilað á Vestfjörðum, þá var því haldið fram að það væru nánast engir villtir laxastofnar á þessum slóðum og því væri óhætt að ala eldislax í þessum fjörðum. Við vitum miklu betur núna að laxastofninn á Vestfjörðum er með tíu þúsund ára þróunarsögu, sem er núna verið að eyðileggja með því að leyfa þar sjókvíaeldi. Þar sem húsdýr blandast þessum villtu stofnum og munu þurrka þá út á endanum,“

Jón segir við Vísi að honum finnist þjóðin hafa verið að vakna mjög hressilega upp á síðustu árum og gera sér grein fyrir þeim skaða sem sjókvíaeldi veldur umhverfinu og lífríkinu.

„Ég myndi hreinlega vilja sjá stofnanirnar fylgja þar eftir. Mér hefur fundist vanta viðbrögð þar. Bæði af hálfu MAST og líka af hálfu Hafrannsóknastofnunar í uppfærðu áhættumati. Með réttu ætti, eins og sérfræðingar sem sjávarútvegsráðherra skipaði fyrir þremur árum bentu á, að herða áhættumatið nákvæmlega á þessum svæðum þar sem eru minni og viðkvæmari villtir stofnar. Það á við um Vestfirði“