Að þetta skuli vera orðin staðan er svo óendanlega sorglegt: „Um miðjan september veiddi Fiskistofa 5 laxa í Mjólká, 4 laxa í Ósá í botni Patreksfjarðar og úr Sunndalsá í Trostansfirði komu 3 laxar frá veiðimanni. Af þessum 12 löxum reyndust 11 vera eldislaxar en einn villtur og kom hann upp úr Sunndalsá.“ Þetta er úr nýbirtri tilkynningu á vef Matvælastofnunar (MAST).

Áður hafði verið sagt frá því að 16 af 32 löxum sem fjarlægðir voru úr Mjólká í septembetr voru úr sjókvíaeldi. Rétt tala samkvæmt þessari tilkynningu er hins vegar að eldislaxarnir voru 17 af 32.

Alls koma því 28 af 44 þeim löxum sem voru fiskaðir upp úr ám á sunnanverðum Vestfjörðum úr sjókvíaeldi. Það er hlutfall upp á 64 prósent.

Samkvæmt tilkynningu MAST er staðfest að 24 þessara laxa komu úr sjókví nr. 11 á eldissvæði Arnarlax við Haganes í Arnarfirði en gat á stærð við bílskúrshurð fannst á netapoka hennar í ágúst 2021.

Í niðurlagi tilkynningar MAST segir að slátrun úr þessari sjókví verður lokið í næstu viku og „mun þá Matvælastofnun geta gefið upp áætlaðan fjölda laxa sem hafa strokið.“

Þetta er furðuleg yfirlýsing. Sjókvíaeldisfyrirtæki hér og í öðrum löndum hafa ítrekað orðið uppvís að því hafa mun meira af fiski í sjókvíum en þau hafa heimild til. Þekkt er dæmið af norsku fyrirtæki sem missti mikinn fjölda fiska frá sér en þegar var svo slátrað kom meira af eldislaxi upp úr kvínni en fyrirtækið sagðist hafa sett ofan í hana. Hér á landi hefur meðal annars Arctic Fish fengið áminningu fyrir að hafa meiri fisk í kvíum en það hafði heimild fyrir.

Við vekjum athygli lesenda okkar á því að hér á þessari síðu okkar hafa í athugasemdum ýmsar klappstýrur sjókvíaeldisins reglulega haldið því fram að eldislax úr sjókvíum drepist hratt eftir að hann sleppur og því stafi villtum laxi ekki hætta af honum. Í þessum hópi er meðal annars meintur fræðimaður sem kennir eldisfræði við háskólastofnun hér á landi.

Þessir einstaklingar hljóta að hugsa sinn gang eftir þessar fréttir. Edlislaxar sem sluppu í ágúst 2021 eru að finnast í þrettán mánuðum síðar í ám út um alla sunnanverða Vestfirði. Má ganga út frá því sem vísu að þeir fiskar sem hafa náðst eru aðeins brotabrot af þeim fjölda sem slapp.