Á þessu ári hafa yfir 300 þúsund eldislaxar sloppið úr sjókvíum við Noreg. Ástandið hefur ekki verið verra í átta ár, eða frá 2011.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp miklar heitstrengingar íslenskra talsmanna sjókvíaeldismanna um hinn „stranga norska staðal“ sem miðað er líka við hér. Sá staðall er þó alls enginn gæðastimpill. Netapokar sem hanga í grind rifna alltaf á endanum með einum eða öðrum hætti og fiskar sleppa út.

Norska hafrannsóknastofnunin varar við að hættan sé mikil á því að þessi gríðarlegi fjöldi af sleppifiskum úr sjókvíunum muni valda erfðaskaða á villtum laxi.

Varlegt mat er að einn lax sleppi úr hverju tonni sem alið er í sjókvíum. Það þýðir að 71 þúsund laxar munu sleppa úr sjókvíaeldi hér við land þegar það hefur náð hámarksstærð miðað við áhættumat Hafrannsóknastofnunar. Til samanburðar telur allur íslenski villti laxastofninn um 80 þúsund fiska.

Sjá umfjöllun Dagens Næringsliv um skýrslu hafrannsóknastofnunarinnar.