Þetta er merkilegt mál sem Fréttablaðið segir hér frá. Atburðarásin er samkvæmt öruggum heimildum okkar aðeins öðruvísi en sagt er frá í fréttinni en grundvallaratriðið stendur þó óhaggað. Það er sá ágreiningur um hvort merki megi eldislaxinn sem íslenskan en sjókvíaeldisfyrirtækin vilja merkja þessa framleiðsluvöru sína með þeim hætti. Því hafa samtök hlunnindabænda og eigenda laxveiðiáa eðlilega mótmælt. Ástæðan er einfaldlega sú að eldislaxinn í sjókvíunum er 100 prósent norskur stofn. Sú staðreynd er óumdeild og bókfærð í áhættumati Hafrannsóknastofnunar ásamt fjölmörgu öðrum opinberum gögnum um laxeldi.

Við þetta má bæta að að þessi norski stofn étur innflutt fóður sem er að stórum hluta gert úr sojabaunum ræktuðum á svæðum þar sem áður voru regnskógar í S-Ameríku. Það er því ekkert íslenskt við eldislaxinn annað en að hann skítur í íslenskan sjó þau tvö ár sem hann er alinn í netapkokunum í fjörðunum okkar.

Landssamband veiðifélaga (samtök eigenda laxveiðiánna) sótti fyrir all nokkru um að fá heitið „íslenskur lax“ skráð og lögverndað á Íslandi en fékk höfnun frá Matvælastofnun (MAST). Matvælaráðuneytið hefur nú ógilt ákvörðun og vill að MAST leiti lögbundinna umsagna.

Ákvörðun MAST á sínum tíma vakti furðu þeirra sem til þekkja. Fordæmið liggur skýrt fyrir. Merkið „íslenskt lambakjöt“ er þegar skráð og lögverndað á Íslandi og má ekki nota um aðra vörur en kjöt af íslensku sauðfé.

Erfitt er að sjá hvernig MAST hyggst standa við fyrri ákvörðun. Norski eldislaxinn í kvíunum er húsdýr sem hefur verið ræktað sem slíkt í margar kynslóðir. Engu skiptir þó sú ræktun hafi farið fram hér á landi. Norskur er stofninn samt og á ekkert skylt við íslenskan lax.

Íslenski hesturinn er ræktaður af stolti í fjölmörgum öðrum löndum en Íslandi. Hér á landi vilja sjókvíaeldisfyrirtækin villa um fyrir neytendum innanlands og utan með því að merkja vöru sína með röngum hætti. Auðvitað á að stoppa slík svik.