„Þetta eru stór orð en við erum að tala um byltingu þegar við notum svæði úti á rúmsjó.“ Þetta segir Thor Hukkelås rannsóknarstjóri félagsins að baki tilraunaverkefninu Ocean Farm 1, sem er risavaxinn laxeldissjókví byggð á svipaðri tækni og notuð er við olíuborpalla.

Ocean Farm 1 sjókvíin var sjósett í fyrra. Þvermál hennar er 110 metrar og tekur hún 1,2 milljón fiska 5 kíló að þyngd. Til samanburðar er algengt að 200 þúsund fiskar séu í hefðbundnum sjókvíum sem eru 50 metrar að þvermáli.

Í meðfylgjandi frétt, sem ummæli Hukkelås eru tekin úr, kemur fram að árið 2022 verði sett niður á rúmsjó tvöfalt stærri kví en Ocean Farm 1, og það er byltingin sem hann nefnir. Fóðurgjöf og eftirlit verður fjarstýrt úr landi, og er því hægt að gera það hvaðan sem er úr heiminum.