Umhverfisstofnun Skotlands (The Scottish Environment Protection Agency) undirbýr nú að setja hömlur á hversu mikið fóður sjókvíaeldisfyrirtækin mega nota á hverju eldissvæði. Markmiðið er að minnka mengunina frá þessari starfsemi.

Hingað til hefur verið miðað við lífmassa, það er magn þess fisks sem má hafa í sjókvíum á hverju svæði.

Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa brugðist ókvæða við þessum fyrirætlunum og segja þær alltof harkalegar.

Þetta er mjög athyglisvert mál því hér á landi höfum við dæmi um að sjókvíaeldisfyrirtækin hafi notað mun meira magn en gefið var upp þegar þau fengu leyfi. Fyrir vikið er mengunin frá starfseminni miklu meiri.

Þetta kemur til dæmis fram í umsögn Hafrannsóknastofnunar um framleiðsluaukning á laxi um 4.500 tonn á vegum Arnarlax í Arnarfirði (júlí 2018) þar sem er bent á að greiningarmörk við greiningu næringarefnasýna við Haganes séu alltof há.

Stofnunin segir í umsögn sinni á að fóðurstuðull í eldi undanfarinna ára sem og fóðurstuðull í væntanlegri viðbót við eldi í Arnarfirði séu mun hærri en þeir stuðlar sem gert hafi verið ráð fyrir í fyrri áætlunum Arnarlax. Ekki sé útskýrt hvers vegna.

Stofnunin tekur fram að séu fóðurstuðlar í eldi síðustu ára verulega frábrugðnir þeim sem komu fram í matsskýrslum og notaðir séu við mat á burðarþoli Arnarfjarðar kunni það að leiða til endurskoðunar burðarþolsmatsins. Þá sé líklegt að með meira eldi til lengri tíma geti hærra hlutfall af úrgangi og fóðurleifum lent í botnlaginu og það breytt forsendum burðarþolsmatsins.

SSPO calls proposals on Scottish salmon feed limits “draconian”