Yfir tvær milljónir eldislaxa hafa drepist í sjókvíum við Ísland fyrstu átta mánuði ársins. Þar af drapst rúmlega helmingur yfir sumarmánuðina þrjá, einsog bent er á í þessari frétt Fréttablaðsins.

Yfirleitt er veturinn verstur en svona er þessi iðnaður þegar upp er staðið. Eldisdýrin stráfalla allt árið.

Segjum nei við opnu sjókvíaeldi á laxi.

Í umfjöllun Fréttablaðsins segir:

„Lax heldur áfram að drepast í sjókvíum hér við land. Þetta má lesa úr upplýsingum í svokölluðu mælaborði fiskeldis á vef Matvælastofnunar.

Má áætla að 321 þúsund eldislaxar hafi drepist í kvíunum í ágúst. Var þá heildarfjöldi dauðra laxa kominn yfir tvær milljónir fiska á fyrstu átta mánuðum ársins. Þar af drápust ein milljón og 48 þúsund laxar yfir sumarmánuðina þrjá.

Þegar Fréttablaðið ræddi í júní við Gísla Jónsson, dýralækni fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, um orsakir laxadauðans sagði hann enga eina skýringu á honum en nefndi óvenju mikið af kísilþörungum í sjónum í vor. „Aðalatriðið er að það séu engir smitsjúkdómar á ferðinni,“ sagði Gísli.“