Árið 2021 var hræðilegt í sögu sjókvíaeldis við Ísland. Nú þegar aðeins fjórir mánuðir eru liðnir af 2022 er ljóst að þetta ár verður miklu verra.

Í fyrra drápust um 2,9 milljónir eldislaxa í sjókvíunum. Það var nýtt skelfilegt met. Til að setja tölununa í samhengi þá telur allur villti íslenski laxastofninn um 50.000 fiska. Í fyrra greindist líka í fyrsta skipti hér við land blóðþorri í eldislaxi, en það er bráðsmitandi og banvæn veira, sú versta sem getur komið upp í fiskeldi. Reynslan frá Noregi sýnir að þegar blóðþorri hefur náð að stinga sér niður er nánast ómögulegt að losna við hann úr fjörðum þar sem sjókvíaeldi er stundað.

Blóðþorrinn fannst fyrst í nóvember 2021 í sjókvíum Laxa í Reyðarfirði. Þá var gripið til umfangsmikillar slátrunar til að freista þess að stöðva útbreiðslu veirunnar, en ljóst er samkvæmt þessum nýju fréttum að það tókst ekki.

Laxar segja að slátra þurfi einni milljón eldislaxa í sjókvíum við Sigmundarhús í Reyðarfirði. Þessi tíðindi koma í kjölfar hryllingsfrétta fyrr á árinu af starfsemi Arctic Sea Farm í Dýrafirði en það fyrirtæki meðhöndlaði eldisdýrin sín með þeim hætti að um 30 prósent þeirra drápust í janúar og febrúar af völdum vetrarsára og líffærabilunar. Þetta voru fiskar sem voru komnir í sláturstærð.

Fjöldinn sem drapst í Dýrafirði var í kringum 500.000. Á Mælaborði sjókvíaeldis má sjá að fyrstu þrjá mánuði 2022 drápust um 1,4 milljónir eldislaxa í sjókvíum hér við land. Risaslátrun Laxa fer með þessa tölu í 2,4 milljónir og við hana bætast svo afföll annarra sjókvíaeldisfyrirtækja í apríl. Þetta þýðir að fyrstu fjóra mánuði þessa árs er dauðinn í sjókvíunum farinn að slaga upp í fjöldann sem drapst allt metárið í fyrra.

Velferðarvandi þessa iðnaðar er gríðarlegur. Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Afleiðingarnar eru að sjálfsögðu mjög neikvæðar líka fyrir afkomu þessara fyrirtækja, enda eru þau þegar farin að segja upp fólki vegna þess að sjókvíarnar, sem áttu að skapa störf, eru að tæmast af völdum þessara manngerðu áfalla.

Myndin sem hér fylgir er frá Noregi og sýnir vetrarsár á eldislaxi.