Árni Pétur Hilmarsson í Nesi í Aðaldal skrifar sterka grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísir.is í dag.

„Ég flutti aftur heim í sveit með fjölskylduna mína vegna þess að ég hef hagsmuni af laxveiði. Ég er af sjöttu kynslóð í Nesi sem byggir afkomu sína á laxveiðihlunnindum og vinn sjálfur á sumrin við leiðsögn í laxveiði. Þetta eru verðmæti og hefðir sem ég vil gjarnan koma áfram til afkomenda minna en er nú ógnað af eldi á laxi af norskum uppruna í opnum sjókvíum við Ísland.

Ég tel að áhyggjur mínar séu réttmætar í ljósi þess hvað talsmenn sjókvíaeldisfyrirtækjanna sögðu um starfsemi sína og svo þess sem hefur gerst í raun og veru.

…Norðmenn með alla sína reynslu hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif allt lúsaeitrið og mengunin frá kvíunum hefur á villta nytjastofna þar við land. Rækjan er hrunin við Noreg og Norðmenn voru nú í september að deila út hundruðum milljóna til rannsókna á hver áhrif laxeldis í opnum sjókvíum hefur á þorskstofninn.

Það er glapræði eða fáviska að loka augunum fyrir þessum staðreyndum. Eða bara tær fyrirlitning á íslenskri náttúru.“