Stórfelld skógareyðing á sér stað Amazonskóginum, meðal annars til að ryðja land undir ræktun sojabauna sem fara í fóður fyrir eldislax.

Norðmenn flytja inn gríðarlegt magn af sojabaunum frá Brasilíu í þessa fóðurframleiðslu. Landrýmið fyrir þá ræktun er á við 238.000 fótboltavelli og hafa framleiðendurnir í Brasilíu orðið uppvísir að því að hrekja burt frumbyggja og eyða skógi í Amazonfrumskóginum, eins og sagt var frá í norskum fjölmiðlum síðasta haust.

Skógareyðingin ein og sér er hörmuleg en til að bæta gráu ofan á svart þá myndi þetta prótein nýtast betur til manneldis. Til að framleiða eina máltíð af eldislaxi þarf prótein sem myndi annars duga í tvær til þrjár máltíðir fyrir fólk.

Með öðrum orðum, í laxeldi er verið að búa til lúxusmatvöru úr fæðuflokkum sem væri annars hægt að nýta til að seðja hungraðan heim. Í fóðrinu er að finna auk sojabauna, hveiti, repjuolíu, maís, fiskiolíur, fiskimjöl og fleiri hrávöruflokka sem eru mikilvæg uppspretta næringar í ýmsum hlutum heimsins.

Fráleitt er að hlusta á framleiðendur eldislax halda því fram að framleiðslan sé hluti af því að leysa vandmálið um hvernig skal metta sífellt fleiri munna á jörðinni. Þvert á móti skerðir þessi framleiðsla möguleika heimsins til þess að mæta sífellt vaxandi fæðuþörf.

Mikilvægt er að átta sig á því að laxeldi er bara lítill hluti af því fiskeldi sem stundað er í heiminum. Langstærsti hluti þess er eldi á fisktegundum sem lifa á fæði sem ekki myndi nýtast til manneldis, ólíkt því sem á við um afurðirnar sem notaðar eru til að framleiða fóður fyrir eldislaxinn.