Mikilvægt að þessi sjónarmið sveitarfélagsins eru komin fram í fjölmiðlum.

„Byggðaráð Borgarbyggðar segir það gríðarlegt hagsmunamál fyrir sveitarfélagið og nærsveitir á Vesturlandi að tekið sé mið af þýðingu villtra laxastofna fyrir afkomu íbúa og búsetuskilyrði í frumvarpi um breytingar á lögum um fiskeldi. Ekki hafi verið haft samráð við sveitarfélög þar sem stór hluti íbúa á lífsafkomu að stóru, eða öllu leyti, undir tekjum af veiðihlunnindum.

Byggðaráð telur að sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi sé ógn við verðmæti sem hafi verið varðveitt í margar kynslóðir á lögbýlum landsins og að ef þessi tekjustofn laskist eða hverfi þá geti það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á búsetu í dreifðum byggðum sveitarfélagsins. Þá telur byggðaráð að efni frumvarpsins samræmist ekki markmiðsyfirlýsingu gildandi fiskeldislaga þar sem segi að vöxtur og viðgangur fiskeldis megi ekki gerast á kostnað nýtingar villtra fiskistofna.”

Þetta kemur fram í umsögn byggðaráðs Borgarbyggðar við frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi og er nú til umfjöllunar hjá atvinnuveganefnd Alþingis.  Sjá umfjöllun RÚV.